Erlent

Þrír látnir og þúsundir slasaðir eftir mótmæli í Kairó

Átök í Kairó.
Átök í Kairó.

Að minnsta kosti þrír létust í ofbeldisfullum mótmælum í Kairó í Egyptalandi í gær en lögreglan batt í nótt enda á óeirðirnar. Skipuleggjendur mótmælanna segja óeirðirnar í gær marka upphafið af endinum á valdatíð núverandi stjórnvalda.

Þúsundir Egyptar söfnuðust saman í miðborg Kairó í til þess að mótmæla 30 ára einræðisstjórn Hosni Mubaraks í gærdag. Mótmælin voru skipulögð fyrirfram af Facebook en upphafsmenn mótmælanna segja fjöldann hafa farið fram úr björtustu vonum.

Snemma í mótmælunum kastaðist í kekki á milli lögreglu og mótmælanda. Lögreglan skaut táragasi á mótmælendur og óeirðirnar hófust. Mótmælendur svöruðu fyrir sig með því að kasta grjóti í lögregluna. Að minnsta kosti þrír létust og þúsundir slösuðust í átökunum.

Stjórn- og félagsvandamál eru svipuð í Egyptalandi og því sem var í Túnis. Mataverð fer síhækkandi, þar er mikið atvinnuleysi og mikil reiði sem beinist að ríkjandi yfirvöldum, sem hafa oft beitt borgara sína hörðu, en meðal þess sem var mótmælt var harðræði lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×