Innlent

Ekki er alltaf hægt að breyta skráningu útblásturs á bílum

Á álagningarseðli bifreiðagjalda kemur fram hvernig gjöld eru lögð á. Liggi ekki fyrir upplýsingar um skráða losun koltvísýrings (co2) þá stendur að losunin sé „óþekkt“. Fréttablaðið/Stefán
Á álagningarseðli bifreiðagjalda kemur fram hvernig gjöld eru lögð á. Liggi ekki fyrir upplýsingar um skráða losun koltvísýrings (co2) þá stendur að losunin sé „óþekkt“. Fréttablaðið/Stefán

Mikið álag hefur verið á starfsfólki Umferðarstofu síðustu daga vegna fólks sem vill fá upplýsingar um útblástursskráningu bíla sinna. Fólk er beðið um að senda stofnuninni frekar tölvupóst en að hringja.

Um áramót tóku gildi ný lög sem breyttu útreikningi bifreiðagjalda. Þau miðast nú við skráða losun koltvísýrings. Liggi þær upplýsingar ekki fyrir eru gjöldin ákvörðuð í samræmi við þyngd ökutækisins.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, bendir á að skammt sé síðan lögunum var breytt og að ekki hafi verið haft samráð við Umferðarstofu um breytingarnar. „Komast hefði mátt hjá óþægindum fjölda bifreiðaeigenda ef Umferðarstofa hefði komið að þeim undirbúningi," segir hann.

Axel Bergmann, framkvæmdastjóri Bílabankans, segist þekkja dæmi þar sem tæpum ellefu þúsund krónum munar á gjöldum eins bíla. Annar tveggja Range Rover jeppa af 2007 árgerð var fluttur nýr til landsins af umboði. Bifreiðagjöld af honum segir Axel vera 23.312 krónur. Hinn var fluttur inn notaður og greiðir 33.214 krónur.

„Ég myndi halda að hátt í 30 prósent bíla séu rangt skráð," segir Axel, en upplýsingar um vanskráningu liggja ekki fyrir hjá Umferðarstofu. Í tölum sem Bílgreinasambandið birti í fyrrasumar kom fram að meðalaldur bíla hér er 10,5 ár, með því hæsta sem gerist í Evrópu. Í svörum Umferðarstofu um málið kemur fram að losun koltvísýrings sé skráð í ökutækjaskrá hjá flestum nýlegri bílum. „Hins vegar er ákveðinn hluti fólksbifreiða, svo sem þær sem eru eldri en 10 ára, ekki með skráða losun koltvísýrings í ökutækjaskrá," segir í tilkynningu Umferðarstofu. Þá er vitað að rútur, sendi- og vörubílar, auk fólksbíla, sem fluttir hafa verið inn notaðir frá Bandaríkjunum, eru ekki með skráða losun koltvísýrings. Fram kemur í svörum stofnunarinnar að hvorki sé hægt að breyta skráningu bíla sem fluttir eru inn frá Bandaríkjunum, né skráningu sendi-, vöru- og hópferðabifreiða.

Þótt dæmi séu um annað segir Einar Magnús ekki hægt að gefa sér að gjöld lækki sé losun ökutækja skráð. „Í vissum tilfellum er því öfugt farið, þau gætu hækkað," segir hann.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×