Innlent

Doktor Gunni gagnrýnir auglýsingar í Húsdýragarði

SB skrifar
Leiktæki þakið auglýsingaskiltum. Myndin er af bloggi Doktor Gunna.
Leiktæki þakið auglýsingaskiltum. Myndin er af bloggi Doktor Gunna.
„Við höfum að leiðarljósi að auglýsingar eða kostunarsamningar séu raunveruleikatengdir," segir Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Húsdýra og Fjölskyldugarðsins. Tónlistarspekúlantinn Gunnar Lárus Hjálmarsson gagnrýnir Húsdýragarðinn á bloggsíðu sinni og birtir mynd af leiktæki sem er þakið skiltum frá Atlantsolíu.

„...hins vegar tók ég eftir því að Atlantsolíu er greinilega byrjuð að sponsa garðinn og það ekkert smá, því skipið á leikvellinum var hreinlega útatað í auglýsingum. Ég tók mynd. Mátti nú ekki hafa þetta aðeins smekklegra, ha?," segir Gunnar á bloggi sínu.

Tómas Óskar segir meginreglu garðsins að auglýsingar eða kostunarsamningar séu tengdir raunveruleikanum. „Þannig á skip og olía til dæmis saman - maður er ekki með sælgætisauglýsingar utan á skipi eða olíuauglýsingar á sjoppum."

Tómas segir þetta fyrirkomulag hafa verið til staðar í öll þau tuttugu ár sem garðurinn hafi verið starfræktur. Hann vill ekki meina að auglýsingum fjölgi í garðinum. „Nei, við erum ekki að reyna að auka magn þeirra," segir hann."

Gunnar Lárus, sem oft er kallaður Doktor Gunni, segir á bloggi sínu að barn hans hefði bent á Atlantsolíulykilinn og spurt í sakleysi sínu: „Afhverju er þessi lykill þarna?." Svar Gunnars var skýrt og skorinort: „Ég sagði að kúk kapítalismans hefði verið skitið á skipið. Eða ekki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×