Innlent

Lögreglumaður kvartaði undan þingmanni VG

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumaðurinn kvartaði undan afstöðu þingmannsins til máls nímenninganna. Mynd/ GVA.
Lögreglumaðurinn kvartaði undan afstöðu þingmannsins til máls nímenninganna. Mynd/ GVA.
Persónuvernd hefur vísað frá máli lögreglumanns sem kærði Þráinn Bertelsson alþingismann til Persónuverndar.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Ágúst Sigurjónsson sendi Þráni, og átta öðrum þingmönnum, bréf vegna afstöðu þeirra til máls nímenninganna sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi. Þingmennirnir stóðu að þingsályktunartillögu um að fella skyldi málið niður. Þráinn áframsendi bréfið á Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Ágúst taldi að Þráni hefði verið óheimilt að senda bréfið til þriðja aðila.

Í bréfi sínu til þingmannanna gagnrýnir Ágúst þá fyrir afstöðu sína í málinu. „Verð ég að benda þér á að sem handhafi löggjafarvalds er ekki ætlast til að þú skiptir þér af störfum dómsvalds, hvað þá að þú takir þér þau störf í hendur eins og þú hefur gert hér. Brýnni mál eru til umfjöllunar á Alþingi og mikilvægt að nýta tímann til starfa sem löggjafarvald og treysta öðrum völdum fyrir sínum störfum," segir Ágúst í bréfinu.

Persónuvernd kemst að þeirri niðurstöðu að umkvörtunarefni lögreglumannsins lúti að því hvort Þráinn hafi farið út fyrir 73. grein stjórnarskrárinnar sem snýr að tjáningarfrelsi. Það sé hlutverk dómstóla en ekki Persónuverndar að skera úr um það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×