Innlent

Íslendingar vinna gegn lömunarveiki í Indlandi

Mynd úr safni
14 íslenskir Rótaractfélagar, Rótarýfélagar og vinir fara í dag með hópi sjálfboðliða frá sex löndum í það sem kallað er „Dream Team-India 2011".

Í þessari tveggja vikna dvöl mun „draumahópurinn" taka þátt í tveimur alþjóðlegum hjálpar verkefnum.

Fyrra verkefnið er þjóðarbólusetningardagur gegn lömunarveiki í Haryana héraði. Íbúar þorpanna eru flestir múslímar, en hópurinn mun fara í þorpin og nágrennið og bólusetja 5 ára börn og yngri gegn lömunarveiki. Þetta er hluti af markmiði Rótarý á alþjóðlegum vettvangi, að útrýma lömunarveiki af jörðinni. Síðastliðin þrjú ár hefur „Bill & Melinda Gates" sjóðurinn lagt fram yfir $355 milljón til Rótarýsjóðsins til þess að útrýma lömunarveikinni. Mun Rótarý bæta við þessa upphæð svo alls verða þetta $ 555 milljón fyrir lok ársins 2012.



Lítil uppskera vegna vatnsskorts


Hitt verkefnið er að hópurinn mun vinna sem verkamenn ásamt héraðsbúum að byggja áveitu stíflu í afskekktu héraði í Rajasthan. Vegna vatnsskorts hafa íbúar ekki náð að uppskera því sem nemur ársþörf þeirra.

Eftir stíflugerðina verður nóg vatn til áveitu og þá mun uppskera aukast um allt að þriðjung. Hópstjórinn, Elias Thomas, Rótarýfélagi frá Maine í Bandaríkjunum og fyrrum umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins 7780 segir: „Það er mér heiður að leiða þennan hóp frá sex löndum, BNA, Kanada, Englandi, Frakklandi, Íslandi og Ástralíu. Þetta er níundi hópurinn og sá stærsti sem ég hef leitt síðan 2004".

Alls eru að 53 manns að fara frá þessum sex löndum og er hópurinn frá Íslandi því talsvert stór. Þetta er í fyrsta skiptið sem Íslendingar slást í för með Elias Thomas en Rótaractklúbburinn Geysir kom því í gang.

Lömunarveiki útrýmt í 118 löndum

Í klúbbnum eru ungmenni á aldrinum 18-30 ára sem eiga það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða. Ár hvert vinnur klúbburinn góðgerðarverkefni innanlands og erlendis og er þessi ferð alþjóðaverkefni klúbbsins árið 2011.

Síðan Rótarý setti sér það markmið að útrýma lömunarveiki hefur henni verið útrýmt í um 118 löndum og sagt er að 99% markmiðsins sé náð. Lokaspretturinn er hins vegar alltaf erfiðastur en lömunarveiki fyrirfinnst enn í 4 löndum - þar á meðal Indlandi.

Þeir sem hafa áhuga á að styrkja þetta verkefni er bent á Rotaractklúbbinn Geysi

reikningsnúmer: 0101-15-630806

kennitala: 551009-2890



Fleiri fréttir

Sjá meira


×