Innlent

Öllum sagt upp á Læknavaktinni

Öllum starfsmönnum Læknavaktarinnar 110 manns var sagt upp störfum í gær en samningur Læknavaktarinnar við Heilbrigðisráðuneytið rann út um áramótin.

Sögu Læknavaktarinnar má rekja allt aftur til ársins 1928 en hún er stærsta einstaka sjúklingamóttaka á landinu. Þar starfa í dag um 110 manns en árið 2008 nutu 132 þúsund sjúklingar þjónustu Læknavaktarinnar utan dagvinnutíma. Til samanburðar koma í kringum 60.000 á slysadeildina á ári sem er þó opin allan sólarhringinn.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur Læknavaktin samið við Heilbrigðisráðuneytið til eins árs í senn og hefur samningur verið endurnýjaður á hverju ári. Það hefur hinsvegar ekki verið gert nú, en eins og fyrr segir rann samningurinn út um áramótin. Því hafa menn þurft að grípa til þessara uppsagna en engu að síður er vilji beggja aðila fyrir hendi um að ná samningum.

Forsvarsmenn Læknavaktarinnar vildu lítið tjá sig um málið að svo stöddu en samkvæmt heimildum fréttastofu setti ráðuneytið fram nokkur skilyrði fyrir endurnýjun á samningum.

Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að viðræður hefðu verið við forsvarsmenn Læknavaktarinnar nú í janúar. Þar hafi menn bæði rætt um núverandi samning en einnig drög að nýjum samningi. Nú sé unnið að kröfulýsingu og komin fram drö að nýjum samningi. Stefnt sé að því að ná samningum sem fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×