Innlent

SA segja synjun Svandísar hafa verið ómálefnalega

Jónas Margeir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.

Samtök Atvinnulífsins telja synjun umhverfisráðherra á staðfestingu skipulags hreppana við Þjórsá vera bæði ómálefnalega, andstæða lögum og einungis til þess fallna að tefja fyrir mikilvægri uppbyggingu og fjárfestingum hér á landi.

Samtökin telja Svandísi einungis vera að þóknast þröngum pólitískum hagsmunum vinstri grænna með framferði sínu.

Hæstiréttur staðfesti í vikunni niðurstöðu héraðsdóms um skipulag Flóahrepps og kemur þar fram að ákvörðun umhverfisráðherra um að staðfesta skipulagið einungis að hluta hafi verið ólögmæt og að Flóahreppi hafi verið heimilt að innheimta hluta kostnaðar vegna skipulagsvinnunnar hjá Landsvirkjun.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökum atvinnulífsins óskuðu þau eftir því við forsætisráðherra í október að áfrýjun málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar yrði dregin til baka þar sem sýnt var að áfrýjunin væri tilefnislaus og myndi engu skila nema frekari töfum málsins. Þannig hljóti forsætisráðherra að íhuga stöðu umhverfisráðherra sem þannig gengi fram.

Fréttastofa stöðvar tvö greindi hins vegar frá því í gærkvöld að forsætisráðherra telur málið ekki tilefni til afsagnar umhverfisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×