Erlent

Óeirðir breiðast út fyrir höfuðborgina

Óeirðirnar breiddust út um borgina í gær og var meðal annars kveikt í þessari verslun í Croydon. fréttablaðið/ap
Óeirðirnar breiddust út um borgina í gær og var meðal annars kveikt í þessari verslun í Croydon. fréttablaðið/ap
Óeirðir halda enn áfram í London og hafa breiðst út um borgina. Meira en tvö hundruð manns hafa verið handteknir vegna óeirðanna og 35 lögreglumenn eru særðir.

Óeirðirnar sem hófust í Tottenham á laugardagskvöld hafa breiðst hratt út og lenti lögreglan í átökum í mörgum hverfum víða um borgina í gærkvöldi. Í Hackney í Austur-London urðu óeirðirnar einna mestar.

Kveikt var í fjölda húsa og bíla víða um borgina auk þess sem brotist var inn í fjölmargar verslanir. Óeirðirnar breiddust til Lewisham og Peckham í suðurhluta borgarinnar og að lokum til Croydon. Þar voru stór hús alelda í gærkvöldi, meðal annars húsgagnaverslun sem var þekkt kennileiti á staðnum.

Keyrt var á þrjá lögreglumenn aðfaranótt mánudags þegar þeir reyndu að handtaka ungmenni sem höfðu brotist inn í verslun í norðausturhluta London. Í gærmorgun náðu óeirðirnar stuttlega inn á Oxford Circus í miðborginni.

Þá hófust óeirðir í borginni Birmingham í gær, en borgin er sú næstfjölmennasta í landinu utan London.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, flaug í gærkvöldi heim úr fríi á Ítalíu. Hann mun funda með innanríkisráðherranum Theresu May og lögreglustjóranum Tim Godwin í dag. May kom einnig snemma úr sumarfríi í gær til að hitta lögregluyfirvöld í London. Hún fordæmdi óeirðirnar og sagði þær óásættanlegar.

Godwin hefur brýnt fyrir fólki að rýma götur og gefa lögreglumönnum rými til að athafna sig.

Ken Livingstone, fyrrverandi borgarstjóri í London, sagði í gærkvöldi að ríkisstjórnin gerði sér ekki grein fyrir mikilli óánægju breskra ungmenna sem séu ekki bjartsýn á framtíðina. Þá sagði hann að lögreglumenn hefðu lengi varað við því að svona ástand gæti skapast. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×