Innlent

Nemendur fá að ljúka námi

Nemendur munu ljúka námi í útstillingum með samvinnu við verslunina Ikea. Mynd/Ikea
Nemendur munu ljúka námi í útstillingum með samvinnu við verslunina Ikea. Mynd/Ikea
Náðst hefur samkomulag um að hópur nemenda við Iðnskólann í Hafnarfirði fái að ljúka námi í útstillingum með samvinnu við verslunina Ikea.

Ákveðið var skömmu fyrir jól að leggja námsbrautina niður án fyrirvara, eins og fjallað hefur verið um í Fréttablaðinu. Fimm nemendur voru langt komnir í náminu og höfðu ætlað að útskrifast í vor.

Nú hefur náðst samkomulag um að nemendurnir ljúki sínu námi undir handleiðslu sérfræðinga Ikea í útstillingum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ikea.

Nemendanna bíða nú fjölbreytt verkefni þar sem til stendur að þeir taki fullan þátt í að gera miklar breytingar á skipulagi verslunar Ikea á vormánuðum.

Í tilkynningu frá Ikea er haft eftir Þórarni Ævarssyni, forstjóra verslunarinnar, að nokkrir starfsmenn útstillingadeildar fyrirtækisins hafi lokið námi í útstillingum frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hjá Ikea sé bæði þekking og reynsla, en auk þess mikið af kennsluefni sem hafi nýst starfsfólki. Nú muni það einnig nýtast nemendunum fimm. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×