Innlent

Síldin í Breiðafirði mjög sýkt

Höfnin fylltist af sýktri og deyjandi síld sem var hirt upp af sjófugli.
Höfnin fylltist af sýktri og deyjandi síld sem var hirt upp af sjófugli.
Frumniðurstöður úr rannsóknarleiðangri Hafrannsóknastofnunar í janúar staðfesta fyrri mælingar um mikla sýkingu í íslensku sumargotssíldinni í Breiðafirði.

Rannsóknaskipið Dröfn RE var við síldarrannsóknir í fimm daga við að kanna útbreiðslu stofnsins, magnmæla hann og síðast en ekki síst að meta og fylgjast með þróun sýkingarinnar sem herjað hefur á síldina frá árinu 2008 og valdið miklum afföllum bæði í ungsíld sem og veiðistofninum.

Alls voru tekin sjö sýni í leiðangrinum, tvö úr torfu í Grundarfirði, fjögur úr torfu í Kolgrafarfirði og eitt úr dreifðri síld í Grundarfirði. Hlutfall sýktra sílda var nánast það sama í torfunum tveimur í Kolgrafafirði og Grundarfirði, eða 43-45 prósent. Hins vegar var mun meiri sýking í sýni sem tekið var úr dreifðri síld í Grundarfirði, en þar voru 53 prósent sýkt.

Í sýnum sem tekin voru úr afla veiðiskipa á vertíðinni haustið 2010 sést að hlutfall sýktra sílda nú er óbreytt. Þessar rannsóknir nú staðfesta því fyrri mælingar um mikla sýkingu í stofninum. Fyrirhugað er að Dröfnin fari að nýju til sambærilegra rannsókna í lok þessa mánaðar. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×