Innlent

Fyrrverandi bankastjóri yfirheyrður í 7 klukkustundir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason.
Sigurjón Þ. Árnason.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara í gær í sjö klukkustundir samfleytt. Halldór J. Kristjánsson er væntanlegur til landsins í dag. Hæstiréttur mun taka afstöðu til kæru vegna gæsluvarðhalds yfir Sigurjóni og Ívari Guðjónssyni á morgun.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í skýrslutökum hjá sérstökum saksóknara í gær frá klukkan eitt eftir hádegi til klukkan átta í gærkvöldi. Hann hefur ekki verið boðaður í skýrslutöku í dag, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, og dvelst á Litla hrauni en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhaldi til 25. janúar næstkomandi. Gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir honum og Ívari Guðjónssyni voru kærðir til Hæstaréttar og er búist við að Hæstiréttir fjalli um kærurnar og taki afstöðu til þeirra á morgun.

Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri Landsbankans við hlið Sigurjóns, er væntanlegur til landsins í dag og hefur verið boðaður í skýrslutöku í dag, að sögn Friðjóns Arnar Friðjónssonar, verjanda hans. Stjórnendur Landsbankans eru grunaðir um að bera á byrgð á stórfelldri markaðsmisnotkun í rekstri bankans en hin meinta markaðsmisnotkun á að hafa staðið yfir frá 2003 og þangað til bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli neyðarlaganna hinn 7. október 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×