Innlent

Þyrlan við æfingar á Vestfjörðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
TF LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar. Mynd/ Vilhelm.
TF LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar. Mynd/ Vilhelm.
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á laugardagskvöld þátt í sjóbjörgunaræfingu með félögum í Björgunarfélagi Ísafjarðar, Tindum í Hnífsdal og Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Fór TF-LÍF frá Reykjavík klukkan hálfátta og lenti á Ísafirði um klukkustund síðar. Fóru kafarar Landhelgisgæslunnar þar frá borði og var þyrlan undirbúin fyrir æfinguna en kafarar fóru í bát frá Slysavararfélaginu Landsbjörg.

Var farið að nýju í loftið klukkan níu til æfinga með Gunnari Friðrikssyni, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og léttbátum frá Ísafirði og Hnífsdal. Að æfingu lokinni var lent á Ísafirði og farið til fundar í húsi Björgunarfélags Ísafjarðar þar sem einnig var boðið upp á kvöldmat og farið var yfir framkvæmd æfingarinnar.

Því næst var haldið að nýju um borð í TF-LÍF og fengu tvær konur úr hundabjörgunarsveitinni að koma með hundana sína um borð eftir að búið var að setja í þyrluna í gang. Var það gert til að hundarnir öðlist traust á þyrlunni. Vegna mikillar ókyrrðar í djúpinu var þó ekki hægt að síga úr þyrlunni með hundana. Æfingu lauk um hálfeittleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×