Innlent

Tengsl milli bólusetningar og drómasýki

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Tengsl eru á milli svínaflensubólusetningar og drómasýki hjá ungmönnum í Finnlandi. Hér á landi hefur tilfellum sýkinnar fjölgað en orsökin eru ókunn.

Drómasýki er taugasjúkdómur sem veldur ýmsum svefntruflunum en fimmtíu ungmenn voru greind með sjúkdóminn í Finnlandi í fyrra. Þau höfðu öll verið bólusett gegn svínaflensu með sama bóluefni sem hefur verið notað hér á landi að nafni Pandemrix. Venjulega greinast þrjú tilfelli á ári þar í landi og hefur fjölgun þeirra vakið mikla athygli.

Tilfellum hefur einnig fjölgað í Svíþjóð, en þeim hefur þó fjölgað hlutfallslega mest á Íslandi.

Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á Sóttvarnasviði segir fimm ungmenni hafa greinst með drómasýki hér á landi í fyrra sem er óvenjumikið. Þrjú voru bólusett gegn flensunni.

„Það er ekki hægt að sjá marktæk tengsl við bólusetninguna hér þannig að það er eitthvað annað sem skýrir þessa aukningu hér. En á öðrum löndum, t.d. í Finnland. Já í Finnlandi hefur sést mikil aukning á Drómasýki hjá ungu fólki og þar eru klár tengsl við bólusetninguna. Það hefur ekki sést aukning í Noregi eða Danmörku en minni aukning í Svíþjóð," segir Þórólfur.



Þessi töluverða fjölgun og óljósu tengsl hafa hvatt mörg Evrópuríki til aðgerða. Sóttvarnalæknir er þátttakandi í alþjóðlegri rannsókn þar sem orsakir verða kannaðar og er niðurstöðu að vænta í sumar.

„Já þetta er dularfullt mál eins og mál eru oft í læknisfræði en það þarf að rannsaka þetta og komast til botns í þessu," segir Þórólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×