Innlent

Árvakur íhugaði að kaupa út nágranna sem eru tengdir Wikileaks

Morgunblaðið. Mynd úr safni.
Morgunblaðið. Mynd úr safni.
Framkvæmdastjóri Data Cell, Ólafur Sigurvinsson, segir að forsvarsmenn Árvakurs, eiganda Morgunblaðsins, hafi íhugað að borga fyrirtækinu 25 milljónir fyrir að flytja úr höfuðstöðvum Morgunblaðsins í Hádegismóa, þar sem fyrirtækið leigir skrifstofur. Þetta kemur fram í Fréttatímanum sem verður dreift í hús á morgun.

Data Cell komst í heimsfréttirnar fyrir nokkrum mánuðum þegar greiðslukortafyrirtæki lokuðu á fyrirtækið vegna tengsla þess við WikiLeaks. Fyrirtækið hefur meðal annars stefnt greiðslukortafyrirtækjum fyrir aðgerðirnar og krefst átta milljarða íslenskra króna í skaðabætur.

Nú eru skrifstofur Data Cell fyrir neðan blaðamenn í Hádegismóanum og svo virðist sem það hafi farið illa í forsvarsmenn Morgunblaðsins að sögn Ólafs. Hann segir að forsvarsmennirnir hafi verið óánægðir með að sjá Kristinn Hrafnsson, fréttamann og annan forsprakka WikiLeaks, í Hádegismóum.

Ólafur segir að ákveðnir menn á vegum Árvakurs hafi komið að máli við þá og gefið sterklega til kynna að að þeir vildu losna við fyrirtækið úr höfuðstöðvunum.

Ólafur segir í viðtali við Fréttatímann að hann hafi í sjálfu sér ekki verið á móti því að flytja. Hann hafi þó gert þá kröfu að Árvakur myndi greiða þann kostnað sem af flutningum hlytist, sem eru 25 milljónir króna samkvæmt útreikningum Ólafs.

Þess má reyndar geta að húsnæðið er ekki í eigu Árvakurs.

Ólafur segir svo að Árvakur hafi tekið sér tvær vikur til þess að íhuga tilboð Data Cell. Síðan hafi þeir ekki haft samband á ný. Því virðist sem svo að fyrirtækið sætti sig við nágranna sína - í bili að minnsta kosti.

Hér má svo nálgast Fréttatímann




Fleiri fréttir

Sjá meira


×