Innlent

Farinn úr landi eftir 27 daga gæsluvarðhaldsvist

Karlmaður sem sat í gæsluvarðhaldi í 27 daga grunaður um nauðgun á Kaffibarnum er farinn úr landi. Manninum var sleppt fyrir viku eftir að lífssýni sönnuð sakleysi hans.

Sagt var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 í gær en maðurinn var handtekinn vegna meintrar nauðgunar á skemmtistaðnum og var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag.

Engin vitni voru að nauðguninni og fórnarlambið mundi lítið eftir því sem gerðist. Vinkonur konunnar komu að henni inni á klósetti staðarins, þar sem sokkabuxur og nærbuxuru höfðu verið dregnar niður, en sæði fannst í leggöngum hennar.

Hún útilokaði að það sæði væri úr eiginmanni sínum, en meðal annars var stuðst við myndbandsupptöku þar sem maðurinn sást ganga með henni inni á staðnum. Hann neitaði sök, en bæði Héraðsdómur og Hæstiréttur töldu sterkan grun um að maðurinn hefði framið brotið. Lífssýni voru send til Svíþjóðar en í ljós kom að þau voru ekki úr manninum og því var hann látinn laus á föstudaginn í síðustu viku.

Maðurinn, sem er erlendur ríkisborgari, hefur tengsl við Ísland en hann er nú farinn til Noregs þar sem hann starfar.

Björgvin Björgvinsson yfirmaður kynferðisbrotadeildar sagði lögregluna vita af ferðum mannsins og hefði verið í sambandi við hann. Hann vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið, annað en að rannsókn væri enn í fullum gangi.




Tengdar fréttir

Sat saklaus í varðhaldi í fjórar vikur

Saklaus maður sat fjórar vikur í gæsluvarðhaldi fyrir meinta nauðgun. Honum var sleppt úr haldi á föstudaginn eftir að lífsýni sönnuðu sakleysi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×