Innlent

Stjórnarskrá Íslands leikin í Hafnarborg

Upptaka af flutningnum verður leikin á RÚV.
Upptaka af flutningnum verður leikin á RÚV.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður flutt sem tónlistar- og myndlistargjörningur í Hafnarborg í dag.  Höfundar verksins eru Libia Castro og Ólafur Ólafsson. Árið 2007 fengu þau til liðs við sig Karólínu Eiríksdóttur tónskáld, sem samdi tónverk við 81. grein stjórnarskrár Íslands.

Verkið var fyrst flutt á Akureyri 2008 en eftir að stjórnarskrá Íslands komst aftur í eldlínuna var ákveðið að taka verkið til sýningar upp á nýtt í Hafnarborg um það leyti sem stjórnlagaþing átti að fara fram. Þótt aðstæður séu nú breyttar segja listamennirnir að verkið sé eftir sem áður mikilvægt innlegg í umræðuna um eðli og inntak núverandi stjórnarskrár.

Kammerkórinn Hymnodia flytur verkið undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar ásamt einsöngvurunum Ingibjörgu Guðjónsdóttur sópran og Bergþóri Pálssyni baritón, Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara og Gunnlaugi Torfa Stefánssyni kontrabassaleikara.

Að flutningnum loknum verður opnuð sýning þar sem upptaka frá flutningi verksins í sjónvarpssal verður í forgrunni. Sú upptaka verður flutt í Sjónvarpinu miðvikudaginn 16. og sunnudaginn 20. febrúar næstkomandi.

Tónleikarnir í Hafnarborg hefjast klukkan 15.

Ólafur Ólafsson og Libia Castro verða fulltrúar Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×