„Við vorum ekki að spila saman og þú vinnur ekki leiki ef það er ekki til staðar,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Keflavíkur eftir tap liðsins gegn KR í kvöld í DHL-höllinni, 75-64. Leikurinn var afar jafn framan af en í lokaleikhlutanum gegnu heimastúlkur á lagið og unnu mikilvægan sigur.
„Varnarleikurinn var góður hjá báðum liðum en KR-liðið hafði það fram yfir okkur að þær voru að spila saman. Við verðum að laga það fyrir næsta leik. Birna (Valgarðsdóttir) náði sér ekki á strik í kvöld og það munar mikið um hana,“ sagði Pálína sem skoraði 15 stig í kvöld.
Nýr bandarískur leikmaður, Melissa Ann Jeltema, lék í liði KR í kvöld. Kom hún Keflavíkurstúlkum á óvart? „Við vissum auðvitað ekkert um hana en við vissum það að hún væri góð. Hún skorar 25 stig í kvöld en þeirra fyrrum erlendi leikmaður var að skila álíka framlagi þannig að þetta breytir litlu. Nú þurfum við að mæta dýrvitlausar í næsta leik og ég hlakka til að fara að spila saman.“
