Innlent

Markmiðið að öll börn hafi aðgang að tannlæknaþjónustu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjartur Hannesson segir að erfiðlega hafi gengið að semja við tannlækna um verðskrá. Mynd/ Pjetur.
Guðbjartur Hannesson segir að erfiðlega hafi gengið að semja við tannlækna um verðskrá. Mynd/ Pjetur.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra útilokar ekki að börnum tekjulágra verði áfram boðin ókeypis tannlæknaþjónusta á vegum ráðuneytisins og Háskóla Íslands. Tilraunaverkefni um slíkt fór fram í sumar og er ekki að fullu lokið. Tannlæknir sem var ósáttur við að börnunum væri boðin þessi þjónusta kærði málið til Samkeppniseftirlitið í sumar, en þeirri kæru var vísað frá í dag.

Guðbjartur segir að þessi kæra hafi í raun ekki haft nein áhrif á verkefnið, þótt hann fagni því að samkeppnissjónarmiðin muni ekki standa í veg fyrir því að slíkt verkefni geti farið fram. Aðalverkefni ráðuneytisins, sem framundan sé, sé hins vegar að ná almennum samningum við tannlækna um þjónustu við börn. „Stóra málið hlýtur að vera það að við getum boðið öllum börnum viðunandi þjónustu," segir Guðbjartur.

Hann segir að tannlæknar eigi að fá greitt frá ríkinu kostnað vegna tannlækninga fyrir börn en samningar um verðskrá hafi verið lausir í fjölda ára og erfiðlega hafi gengið að koma á nýjum samningum. „Markmiðið er að ná samningum við tannlækna um að sinna þjónustu betur við börnin almennt en þeir samningar hafa ekki náðst ennþá," segir Guðbjartur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×