Innlent

Karlmaður dæmdur fyrir að stela snyrtivörum

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.
Karlmaður af erlendum uppruna var dæmdur í tíu mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölmörg afbrot í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Maðurinn, sem hefur setið í gæsluvarðhald frá því í síðustu viku, er meðal annars dæmdur fyrir að hafa stolið fjölmörgum snyrtivörum, svo sem hárblásara, varalit, andlitsfarða og fleira. Þá var hann einnig með yfir hundrað kannabisplöntur á heimili sínu auk þess sem rúmlega 70 grömm af kannabisefnum fundust á manninum.

Hann er einnig sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir að aka ítrekað undir áhrifum vímuefna. Brotaferill mannsins nær frá vetrinum 2008 til þjófnaðarbrota sem framin voru seint í sumar.

Þá var hálf milljón króna, sem fannst í fórum mannsins, gerð upptæk. Hann mótmælti kröfu ákæruvaldsins. Hann gat þó ekki gefið neinar skýringar á fénu, hann sagðist hafa áskotnast féð þar sem hann var á félagslegum bótum og að hann hafi ekki treyst íslenska bankakerfinu. Því hafi hann geymt það á heimili sínu.

Það þótti hinsvegar sannað að féð væri afrakstur fíkniefnasölu, því var það gert upptækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×