Erlent

Bardagar við höfuðstöðvar Gaddafis

Frá Græna torginu í Trípólí
Frá Græna torginu í Trípólí mynd/afp
Mikil fagnaðarlæti brutust út í Trípoli, höfuðborg Líbíu, í gærkvöldi þegar að uppreisnarmenn náðu miðhlutaborgarinnar á sitt vald. Fjörutíu og tveggja ára einræðisstjórn Gaddafis virðist vera að ljúka.

Uppreisnarmenn skjóta nú af byssum sínum upp í loftið og dansa af gleði eftir að þeir náðu Græna torginu í miðborg Trípolí á sitt vald seint í gærkvöldi. Veggspjöld með myndum af Múammar Gaddafi, fyrrum einræðisherra, hafa verið fjarlægð og fána uppreisnarmannanna hefur nú verið komið fyrir víðsvegar um torgið.

Græna torgið er eins konar táknmynd Gaddafis en þar hefur hann haldið flestar sínar ræður og stuðningsmenn hans hafa safnast saman á torginu til að sýna honum stuðning.

Sveitir Gaddafis virðast hafa gefist upp þegar að uppreisnarmennirnir réðust til atlögu í gærkvöldi og veittu litla sem enga mótspyrnu. En þeir segja sveitir einræðisherrans séu enn með 15-20 prósent borgarinnar á sínu valdi.

Saksóknari hjá alþjóðaglæpadómstólnum í Haag hefur staðfest að Seif al-islam, sonur Gaddafis, sé í haldi uppreisnarmanna. Hann var talinn eiga taka við völdum í landinu af föður sínum. Þá er yfirmaður líbísku leyniþjónustunnar einnig í haldi.

Ekki er vitað hvar sjálfur Gaddafi heldur sig, en í samtali við ríkisútvarp Líbíu í gærkvöldi, sagði hann að borgarbúar yrðu að standa saman og verjast uppreisnarmönnunum af fullum krafti. Hreinsa þyrfti rotturnar, eins og hann kallaði uppreisnarmennina, af götum borgarinnar - jafnvel þó það myndi kosta mikið blóðbað.

Fréttastofan AFP sagði frá því í morgun að harðir bardagar væru nálægt höfuðstöðvum Gaddafis. Ekki er þó ljóst hvort að einræðisherran er í húsinu. Margir velta því fyrir sér hvar hann sé, sumir fjölmiðlar segja hann vera í eyðimörkinni á meðan aðrir segja að hann sé flúinn í annað land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×