Innlent

Frestaði ákvörðun um gæsluvarðhald

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, krafðist gæsluvarðhalds yfir Sigurjóni og Ívari. Mynd/ Daníel.
Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, krafðist gæsluvarðhalds yfir Sigurjóni og Ívari. Mynd/ Daníel.
„Það voru engir úrskurðir kveðnir upp í kvöld," sagði dómari í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í gærkvöldi. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og öðrum manni í bankanum. Sá maður er Ívar Guðjónsson

Að öðru leyti sagðist dómarinn ekki tjá sig um þetta mál. Lögregla fylgdi Sigurjóni Árnasyni út úr Héraðsdómi Reykjavíkur á tólfta tímanum í gær eftir að gæsluvarðhalds var krafist yfir honum. Nokkru síðar var Ívari fylgt út úr dómnum.

Samkvæmt 98. grein sakamálalaga á dómari að jafnaði að leggja úrskurð á kröfu um gæsluvarðhald svo fljótt sem verða má. Hins vegar getur dómari frestað því að úrskurða um gæsluvarðhald allt að 24 klukkustundir.

Þegar Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á Kaupþingssamstæðunni tók dómari sér einnig frest yfir nótt til að úrskurða um gæsluvarðhaldið.

Ranghermt var hér á vefnum í gærkvöld að gæsluvarðhalds hefði verið krafist yfir Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá bankanum. Það leiðréttist hér með.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×