Innlent

Góð stemmning á Japanshátíð

Enginn aðgangseyrir er á Japanshátíðina og hún er opin öllum. Hátíðin stendur til klukkan 18 í dag.
Enginn aðgangseyrir er á Japanshátíðina og hún er opin öllum. Hátíðin stendur til klukkan 18 í dag. Mynd/Sigurjón
Góð stemmning er á Japanshátíð sem fer fram á Háskólatorgi í dag. Fjölmargir hafa lagt leið sína á hátíðina en þar er gestum boðið að kynna sér japanskt líf og menningu í fjölbreyttum kynningum og fyrirlestrum.

Í boði er japönsk matargerðarlist, skrautritun og japanskt pappírsbrot sem oft er kölluð origami. Gestum er einnig boðið í ekta japanska teathöfn og að smakka á því sem þar er borið fram, að því er fram kemur á vef Háskóla Íslands.

Einnig geta gestir kynnt sér japanska borðspilið Igo. Óáfengur karaokebar verður opinn fyrir gesti ásamt því að sýndar eru japanskar bíómyndir og sjónvarpsþættir. Á hátíðinni er einnig boðið upp á fræðslu um japanska poppmúsík og tölvuleiki.

Enginn aðgangseyrir er á Japanshátíðina og hún er opin öllum. Hátíðin hófst klukkan 13 og stendur til 18.

Japanshátíðin hefur verið haldin í janúar ár hvert frá 2005. Hátíðin er skipulögð í samvinnu Sendiráðs Japans á Íslandi og nemenda í japönsku máli og menningu á Hugvísindasviði.

Almennar upplýsingar um nám í japönsku, skólastyrki og skiptinám við japanskra háskóla, verða aðgengilegar á hátíðinni. Auk þessa verður hægt að nálgast upplýsingar um Íslensk-Japanska félagið og Félag Japansmenntaðra á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×