Innlent

Afsögn forsætisráðherra væri eðlileg

Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn Pálsson.

Fyrrverandi forsætisráðherra segir viðbrögð ráðherra við ákvörðun Hæstaréttar að ógilda stjórnagalþingskosningarnnar meiri áfall en sjálf ógildingin. Afsögn forsætisráðherra væri ekki óeðlileg í þessu samhengi.

Þetta er mat Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í pistli í Fréttablaðinu í dag segir hann meðal annars: „Hvarvetna í lýðræðisríkjum hefði sá handhafi framkvæmdavaldsins sem borið hefði stjórnskipulega ábyrgð á svo alvarlegum mistökum tafarlaust þurft að taka afleiðingum þess að hafa ekki risið undir henni. Slík lagaleg og siðferðileg ábyrgð er svo víðsfjarri hugmyndaheimi forsætisráðherra að hann bað Alþingi ekki einu sinni afsökunar."

Þorsteinn rifjar upp að í siðferðiskafla rannsóknarskýrslu Alþingis sé sérstaklega fundið að því hvernig stjórnendur bankanna teygðu og toguðu túlkun á bankalöggjöfinni til að ná markmiðum sínum.

„Það var nákvæmlega þetta sem dómsmálaráðherra gerði við framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna. Til að auðvelda framkvæmd þeirra var gengið á svig við skýr lagafyirmæli og áratuga hefðir sem tryggja eiga leynilegar kosningar. Hagræðingin var metin meir en mannréttindin."

Hann bendir jafnframt á að í siðferðiskafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar sé einnig fundið að því að eftirlitsaðilar skuli hafa túlkað lögin eins þröngt og verða mátti við mat á ábyrgð stjórnenda bankanna.

„Þannig ganga fyrstu viðbrögð meirihluta Alþingis gegn mikilvægustu ábendingunum í siðferðiskafla rannsóknarskýrslunnar. Afsögn forsætisráðherra væri ekki óeðlileg. Fullharkalegt má þó telja að krefjast hennar. Skylda hans er hins vegar að sjá til þess að viðkomandi ráðherra axli pólitíska ábyrgð," segir Þorsteinn í pistlinum sem hægt er að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×