Innlent

Starfshópar um atvinnumál funda í þjóðmenningarhúsinu

Fyrsti fundurinn á samráðsvettvangi stjórnvalda, vinnumarkaðsaðila og allra þingflokka um atvinnu og vinnumarkaðsmál, verður haldinn í dag
Fyrsti fundurinn á samráðsvettvangi stjórnvalda, vinnumarkaðsaðila og allra þingflokka um atvinnu og vinnumarkaðsmál, verður haldinn í dag
Forsætisráðherra hefur boðað fulltrúa í nýskipuðum starfshópum um atvinnumál og vinnumarkaðsúrræði og ráðherranefnd um atvinnumál til sameiginlegs fundar í þjóðmenningarhúsinu í dag. Fundurinn hefst kl. 15.00 og er sá fyrsti á samráðsvettvangi stjórnvalda, vinnumarkaðsaðila og allra þingflokka um atvinnu og vinnumarkaðsmál.

Samstarfsvettvangurinn mun skiptast í tvo vinnuhópa; annarsvegar um mótun atvinnuáætlunar og sköpun starfa („atvinnuhópur") og hinsvegar um mótun aðgerðaráætlunar á sviði vinnumarkaðsúrræða, starfs- og endurmenntunar og endurhæfingar („vinnumarkaðshópur").

Hóparnir eru skipaðir fulltrúum tilnefndum af hlutaðeigandi ráðuneytum, öllum þingflokkum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verða kallaðir til setu í hópunum sérfræðingar sem búa yfir reynslu og þekkingu á sviði atvinnu- og vinnumarkaðsúrræða.

Hópunum er ætlað að útfæra lausnir og úrræði sem eru til þess fallnar að skapa fjölbreytt og varanleg störf og leita úrræða á sviði starfs- og endurmenntunar og leiða til að virkja atvinnuleitendur. Hópunum er m.a. ætlað að leggja fyrir ráðherranefnd um atvinnumál annars vegar tillögur um úrræði til skemmri tíma og hins vegar tillögur um stefnumótun til lengri tíma á framangreindum sviðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×