Innlent

Undirritun samninga um kísilver frestast

Helguvík. Mynd/ GVA.
Helguvík. Mynd/ GVA.

Undirskrift samninga um kísilver í Helguvík, sem vonast var til að yrði í dag, frestast enn. Nú er stefnt að undirritun seinnipartinn í næstu viku og horfa menn til fimmtudagsins 17. febrúar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ástæða þessara tafa einkum sú að frágangur flókinna samninga hefur reynst tímafrekari en búist var við á endasprettinum.

Stefnt er að því að framkvæmdir í Helguvík hefjist í maímánuði. Um 150 störf myndu skapast við uppbygginguna næstu tvö ár og síðan 90 framtíðarstörf á Suðurnesjum.

Kísilverið þarf drjúga raforku, um 65 megavött, og er gert ráð fyrir að hún komi bæði frá Landsvirkjun og HS Orku, og fyrstu tvö árin í jöfnum hlutföllum. Orkusamningunum við kísilverið verður stillt upp með þeim hætti að Landsvirkjun geti síðar alfarið tekið þá yfir og þannig skapað HS Orku svigrúm til að mæta raforkuþörf álversins, sem Norðurál reynir að byggja upp í Helguvík.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×