Innlent

Skattahækkanir höggva í innanlandsflugið

Stjórnvöld setja íbúa landsbyggðarinnar í spennitreyju með því að leggja 400 milljónir króna skattahækkanir á innanlandsflugið á sama tíma og farþegum hefur fækkað um fimmtung á tveimur árum. Þetta var fullyrt í umræðum á Alþingi í dag.

Sjö prósenta samdráttur í innanlandsflugi í fyrra bættist við tíu prósenta samdrátt árið áður, sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, um leið og hann gagnýndi skattahækkanir á flugið, sem hann sagði kalla á umtalsverðar fjargjaldahækkanir.

"Almenningur á landsbyggðinni, sem nýtir sér þetta flug, er núna í algerri spennitreyju," sagði Einar. Hann kvaðst óttast að þessi þróun ýtti enn frekar undir fólksflótta af landsbyggðinni.

Ögmundur Jónasson, ráðherra flugmála, taldi óhjákvæmilegt að mæta tekjusamdrætti eftir efnahagshrunið. Sú almenna lína hefði verið tekin að hlífa innanlandsfluginu, eins og kostur væri, en gera Keflavíkurflugvöll að sjálfbærri rekstrareiningu.

Þingmaðurinn taldi ráðherrann gera lítið úr gjaldahækkunum, sem hann rakti: Leiðarflugsgjöld nýlega þrefölduð, lendingargjöld hækkuð um 60 prósent, flugverndargjöld hækkuð um 55 prósent, farþegaskattur tvöfaldaður, nýtt kolefnisgjald og ný umhverfisgjöld.

"Þetta kostar 400 milljónir króna. Þetta eru 10 prósent af veltu innanlandsflugsins. Þetta kallar hæstvirtur innanríkisráðherra að verið sé að hlífa innanlandsfluginu. Mér sýnist alveg þvert á móti að það sé verið að höggva mjög í innanlandsflugið," sagði Einar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×