Innlent

Dæmdur í Noregi, kærir á Íslandi

Vítisengill dæmdur Leif Ivar Kristiansen hefur verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í heimalandi sínu en stendur í skaðabótamáli við íslenska ríkið.
Vítisengill dæmdur Leif Ivar Kristiansen hefur verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í heimalandi sínu en stendur í skaðabótamáli við íslenska ríkið.
Leif Ivar Kristiansen, forsprakki Vítisengla í Noregi, var í gær dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnamisferli og rán. Hann stendur nú í skaðabótamáli við íslensk stjórnvöld vegna frávísunar úr landi í fyrra.

Á vef Verdens Gang kemur fram að Kristiansen var annars vegar sakfelldur fyrir aðild sína að stóru fíkniefnamáli þar sem tæp tíu kíló af hassi voru gerð upptæk og hins vegar rán. Sannað þótti að hann hefði með hótunum fengið háar fjárhæðir frá vitorðsmönnum sínum í fíkniefnamálinu. Hann sagðist myndu áfrýja dómnum.

Kristiansen rekur nú skaðabótamál gegn íslenska ríkinu eftir að hann var handtekinn við komuna til landsins í febrúar í fyrra og vísað úr landi eftir einnar nætur vist í fangaklefa.

Vinni hann það mál verður það ekki í fyrsta sinn sem ríkinu er gert að greiða vélhjólamönnum skaðabætur því að meðlimum MC Iceland vélhjólaklúbbsins voru dæmdar skaðabætur að upphæð 700.000 krónum vegna ólögmætrar handtöku.

MC Iceland fékk inngöngu í Hells Angels fyrr á þessu ári, en meðlimir klúbbsins segjast ekki tengjast glæpastarfsemi. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×