Innlent

6,5 milljónir í söfnun

Jónas Þórir Þórisson
Jónas Þórir Þórisson
Alls hafa 6,5 milljónir króna verið greiddar til Hjálparstarfs kirkjunnar með valgreiðsluseðlum í heimabanka frá því að átakið um breytingar á innlendri mataraðstoð hófst fyrir um viku. Breytingunum er beint gegn biðröðunum sem tíðkast hafa við matarúthlutanir.

„Söfnunin hefur gengið mjög vel á þessari einu viku. Það má kannski gera ráð fyrir að þetta gangi best fyrst eftir mánaðamót en við sendum út 120 þúsund kröfur og það hefur að vísu enn ekki komið inn stórt hlutfall af þeim,“ segir Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, um verkefnið, sem mun standa í sjö mánuði til að byrja með.

Breytingarnar á mataraðstoðinni eru fólgnar í því að skjólstæðingar Hjálparstarfsins sem eru með börn á framfæri fá í hendur inneignarkort í verslunum sem selja helstu nauðþurftir. Inneignarkortin, sem geyma fasta og fyrir fram ákveðna upphæð, koma í stað matarpoka sem Hjálparstarfið hefur hingað til afhent.

„Einstaklingar sem ekki treysta sér til þess að standa í biðröðum einhverra hluta vegna hafa hringt til okkar og spurt um möguleika á inneignarkorti og við munum taka slíkar beiðnir til athugunar eins og allar aðrar beiðnir,“ segir Jónas Þórir. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×