Erlent

Frekari refsiaðgerðir boðaðar

Assad sætir vaxandi þrýstingi.nordicphotos/AFP
Assad sætir vaxandi þrýstingi.nordicphotos/AFP
 Bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Catherine Ashton, utanríkisfulltrúi Evrópusambandsins, skora á Bashar Assad Sýrlandsforseta að segja af sér.

Þau fordæma bæði harkalega framgöngu Sýrlandsstjórnar gegn mótmælendum undanfarnar vikur og mánuði, sem kostað hafa meira en þúsund manns lífið.

Jafnframt hefur Bandaríkjastjórn fryst allar eigur sýrlenskra ráðamanna í Bandaríkjunum og Evrópusambandið boðar frekari aðgerðir. Þá hefur Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna verið kallað saman til að fjalla um framferði stjórnvalda í Sýrlandi.

„Við höfum statt og stöðugt sagt að Assad forseti verði að hafa forystu um breytingar í lýðræðisátt eða víkja ella. Hann hefur ekki tekið þá forystu,“ segir Obama.

Bandarískir embættismenn viðurkenna reyndar að þessar yfirlýsingar séu ekki líklegar til að hafa nein áhrif á hegðun sýrlenskra stjórnvalda á næstunni. Hins vegar sé með þessu gefin sterk skilaboð um að Assad njóti ekki lengur velvildar alþjóðasamfélagsins.

Frekari refsiaðgerðir geti einnig aukið þrýsting á Assad og helstu samstarfsmenn hans.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×