Erlent

Innflytjendamálin ekki lengur málið

Leiðtogi Sósíaldemókrata gerir sér vonir um að verða forsætisráðherra fyrstu stjórnar vinstri flokkanna í áratug. nordicphotos/AFP
Leiðtogi Sósíaldemókrata gerir sér vonir um að verða forsætisráðherra fyrstu stjórnar vinstri flokkanna í áratug. nordicphotos/AFP
Skoðanakannanir sýna enn yfirburði vinstri flokkanna í Danmörku, nú þegar rétt rúm vika er eftir til kosninga, eftir þriggja kjörtímabila samfellda stjórnartíð hægri manna. Efnahagsvandi ríkisins yfirgnæfir önnur kosningamál.

Svo virðist sem hörð útlendingastefna virki ekki lengur vel til atkvæðaveiða í Danmörku. Samkvæmt skoðanakönnunum virðast Danir almennt komnir á þá skoðun að hún sé nógu ströng nú þegar.

Minnihlutastjórn Venstre og Íhaldsflokksins hefur verið við völd í áratug, með stuðningi Danska þjóðarflokksins. Þessi stjórn hefur því haft nægan tíma til að koma í framkvæmd helstu málum sínum, sem ekki síst snerust um að setja innflytjendum í Danmörku strangari skorður.

Meðal annars var stofnað sérstakt aðlögunarmálaráðuneyti, sem hefur það hlutverk að halda utan um mál innflytjenda og útlendinga. Umdeildar voru einnig reglur, sem settar voru um að útlendingur geti ekki gifst Dana nema báðir einstaklingarnir hafi náð 24 ára aldri.

Vinstri flokkarnir vilja draga í land í þessum efnum, meðal annars bæði leggja niður aðlögunarmálaráðuneytið og fella niður 24 ára regluna.

Núna er það fyrst og fremst efnahagsvandi þjóðarinnar sem brennur á kjósendum frekar en innflytjendamálin. Stóru kosningamálin snúast um leiðir til að draga úr ríkisútgjöldum og auka tekjur ríkisins.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, formaður Venstre, ákvað seint í ágúst að kosningar skyldu haldnar 15. september, nokkrum vikum áður en kjörtímabil stjórnarinnar rennur út, sem er í nóvember næstkomandi.

Skoðanakannanir hafa síðan verið birtar nánast daglega og sýndu strax yfirburði vinstriflokkanna. Þeim hefur verið spáð 92 til 95 þingsætum af 175, en nú allra síðustu daga hefur forskot vinstri flokkanna reyndar minnkað eitthvað.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun treysta flestir Lars Løkke Rasmussen til að vera forsætisráðherra áfram, eða tæp 20 prósent, en næst mesta traustsins nýtur Margrethe Vestager, leiðtogi Róttæka flokksins.

Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins, þykir engu að síður líklegust til að verða næsti forsætisráðherra í krafti þess að vera formaður stærsta flokks vinstriblokkarinnar.

Enn sem komið er er vart sjáanlegt að hið óvænta bandalag smærri stjórnarflokksins, nefnilega Íhaldsflokksins, við Róttæka flokkinn, sem er vinstra megin í kosningalitrófinu, um náið samstarf eftir kosningarnar, muni hafa veruleg áhrif á kjósendur.

Báðir flokkarnir líta á sig sem miðjuflokka og bandalag þeirra raskar þeirri tvískiptingu danskra stjórnmálaflokka í hægriblokk og vinstriblokk, sem lengi hefur verið ráðandi í danskri stjórnmála-umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×