Innlent

Gæti hafa verið blekktur með staðdeyfilyfi

Þung refsing liggur við því að flytja til landsins e-töflur.
Þung refsing liggur við því að flytja til landsins e-töflur.
Sautján ára piltur sem tekinn var með 30 þúsund e-töflur í farangri sínum í Leifsstöð fyrir tæpum tveimur vikum reyndist einnig hafa í fórum sínum tvö kíló af staðdeyfilyfinu líkódíni. Þetta hefur efnagreining leitt í ljós.

Pilturinn var handtekinn við komuna til landsins frá Kaupmannahöfn aðfaranótt 24. ágúst. E-töflurnar fundust í farangri hans, ásamt fimm kílóum af duftefnum sem reyndust ekki vera ólögleg fíkniefni.

Efnagreining hefur nú leitt í ljós að þar var um að ræða þrjú kíló af alkóhólsykri, sem er alþekkt íblöndunarefni til að drýgja fíkniefni, og tvö kíló af staðdeyfilyfinu líkódíni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er verið að skoða þann möguleika að pilturinn hafi verið blekktur í fíkniefnaviðskiptunum, enda svipar líkódíni mjög til kókaíns og gefur jafnvel oft jákvæða svörun í sérstökum kókaínprófum.

Reynist það raunin, að pilturinn hafi haldið sig vera að flytja inn kókaín, getur það haft talsverð áhrif á refsingu hans. Að öðrum kosti varðar innflutningurinn við lyfjalög, enda er ekki hverjum sem er heimilt að flytja inn staðdeyfilyf í miklu magni.

Pilturinn hefur lítið viljað tjá sig um aðdraganda málsins í yfirheyrslum hjá lögreglu. Ljóst þykir að sautján ára unglingur hafi ekki getað fjármagnað kaup á þessu magni fíkniefna og því beinist rannsóknin að því að finna vitorðsmenn hans eða þá sem fengu hann til verksins. Það hefur ekki enn borið árangur.

Gæsluvarðhald yfir piltinum rennur út í dag. Að öllum líkindum verður krafist framlengingar á því. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×