Innlent

Með fimm vélum til Heidelberg

Í Heidelberg fór hópurinn í skoðunarferðir og gerði sér glaðan dag.nordicphotos/getty
Í Heidelberg fór hópurinn í skoðunarferðir og gerði sér glaðan dag.nordicphotos/getty
„Það hefur ekki gengið illa hjá okkur,“ segir Þorvarður Gunnarsson, forstjóri endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte, nýkominn heim frá Heidelberg í Þýskalandi þar sem hann fagnaði um helgina árshátíð ásamt starfsmönnum sínum og mökum þeirra.

Alls fór um 300 manna hópur með áætlunarflugi til Frankfurt og þaðan með rútu suður til Heidelberg. „Við dreifðum okkur á fimm flugvélar í öryggisskyni eins og reglur Deloitte á alþjóðavísu gera ráð fyrir,“ segir Þorvarður.

Ferðakostnaðinum hafi verið skipt á milli fyrirtækisins og ferðalanganna sjálfra.

Hann segir að það hafi verið venja hjá fyrirtækinu að fara í starfsmannaferð sem þessa á þriggja ára fresti til að hrista hópinn saman og engin ástæða hafi þótt til að breyta út af þeirri venju þrátt fyrir að viðhorf fólks til ferða af þessu tagi hafi breyst umtalsvert eftir hrun.

Þorvarður segir ferðina enda ekki hafa verið neina bruðlferð eins og þær sem kenndar eru við árið 2007. „Alls ekki – síður en svo. Við hjá Deloitte höfum alltaf reynt að gera hlutina á eins hagkvæman og ódýran hátt og hægt er,“ segir hann. „Og við ætlum að halda áfram að reyna að gera þetta á þriggja ára fresti.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×