Innlent

Brýnt að losa höftin sem fyrst

Már Guðmundsson seðlabankastjóri fjallaði um áætlun stjórnvalda og Seðlabankans um afnám hafta.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri fjallaði um áætlun stjórnvalda og Seðlabankans um afnám hafta.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir brýnt að losa gjaldeyrishöftin sem fyrst, þar sem kostnaður við þau vaxi með tímanum. Ábatann af hröðu afnámi verði hins vegar að meta á móti skammtímakostnaði vegna óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði sem losunin geti valdið.

Þetta kom fram í erindi sem Már hélt á fundi félags löggiltra endurskoðenda í gær.

Már sagði höftin hafa verið sett á til að stöðva frjálst fall krónunnar í framhaldi bankahrunsins. Þá hafi þau veitt skjól fyrir endurskipulagningu efnahagsreikninga og mildað samdrátt í hagkerfinu. Þá hefðu vextir þurft að vera miklu hærri án hafta.

Þá sagði Már að segja mætti að ábati haftanna fælist í auknum stöðugleika og meira svigrúmi til að láta hagstjórn taka mið af innlendum aðstæðum. Þá bætti hann við að ábatinn væri mestur til að byrja með. Á móti komi aukinn viðskiptakostnaður og glötuð viðskiptatækifæri sem aukist með tímanum.

Már fjallaði síðan um áætlun stjórnvalda og Seðlabankans um afnám hafta og sagði hana leið til að losa höftin án þess að taka of mikla áhættu með gengisstöðugleika. Hún tryggi um leið lánsfjármögnun ríkissjóðs og lausafjárstöðu bankanna og stuðli að aukinni fjárfestingu. Loks benti Már á að áætlunin er skilyrt en ekki tímasett og sagði ekki vera forsendur fyrir tímasettri áætlun. Uppfylla þurfi ákveðin skilyrði svo sem er varða þjóðhagslegan stöðugleika, fjármálastöðugleika og nægilegan gjaldeyrisforða, áður en hægt sé að klára verkið.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×