Innlent

Frestun slæm fyrir nemendur lögregluskólans

Tuttugu nýnemar hafa verið valdir í Lögregluskólann.
Tuttugu nýnemar hafa verið valdir í Lögregluskólann.

Frestun um mánuð á grunnnámi í Lögregluskóla ríkisins hefur komið illa við suma væntanlegra nemenda. Þeir hafa sagt upp vinnu sinni og gert ráðstafanir varðandi húsnæði miðað við að námið hæfist í dag, 1. febrúar, eins og til stóð.

„Ég sé fram á atvinnulausan febrúarmánuð,“ segir Konráð Þorleifsson á Sauðárkróki, sem sagði upp atvinnu sinni frá og með deginum í dag.

Hann segir frestunina ekki koma niður á húsnæðismálum hjá sér þar sem hann muni dvelja hjá ættingja á höfuðborgarsvæðinu á námstímanum.

„Ég veit af öðrum utan af landi sem var búinn að leigja íbúðina sína út og taka aðra á leigu í Reykjavík. Hann varð að semja við leigusalann um að koma í mars en ekki byrjun febrúar og svo varð hann að fara úr húsnæðinu sínu, þar sem hann var búinn að leigja það út og fá jafnvel inni hjá skyldmennum.“

Þeir tuttugu nýnemar sem búið var að veita inngöngu í Lögregluskólann ætla allir að þiggja skólavistina þrátt fyrir frestunina. Hún kemur til af því að Alþingi hefur ekki afgreitt frumvarp um breytingu á lögreglulögum sem lýtur að breytingum á launagreiðslum til lögreglunema.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×