Innlent

Kísilver í Helguvík frestast

Fulltrúar frá bandarísku fyrirtæki, sem vill reisa kísilver í Helguvík, héldu heim í dag án þess að samningar kláruðust en búist hafði verið við undirskrift í þessari viku. Vonir eru bundnar við að málið komist í höfn í febrúar.

Smíði kísilvers í Helguvík fyrir átján milljarða króna yrði stærsta nýja erlenda fjárfestingin hérlendis frá bankahruni. Hún hefði því ekki aðeins mikla efnahagslega þýðingu heldur að líkindum afar jákvæð sálræn áhrif, ekki síst á Suðurnesjum, en um 150 störf myndu skapast við verkefnið næstu tvö ár og síðan 90 framtíðarstörf.

Fulltrúar bandarísku fjárfestanna hafa dvalið á Íslandi undanfarnar tvær vikur og var markmið þeirra sem að málinu vinna að ljúka öllum samningum í þessari viku svo unnt yrði að tilkynna fyrir mánaðamót að framkvæmdir hæfust í vor. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 leit út lengi fram eftir vikunni að það tækist, ekki síst þar sem flóknir orkusamningar við bæði HS Orku og Landsvirkjun eru taldir nánast tilbúnir til undirskriftar.

Heimildarmenn fréttastofu segja að á lokasprettinum síðustu daga hafi það einkum verið atriði í fjárfestingarsamningi við ríkið sem ekki tókst að klára og urðu til þess að bandarísku samningamennirnir sneru heim í dag. Mönnum ber þó saman um að ekki sé um ágreining að ræða heldur þurfi einfaldlega lengri tíma til að ganga frá samningum og ríkir bjartsýni um það geti tekist innan fárra vikna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×