Innlent

145 jarðskjálftar og fimm sprengingar í vikunni

Myndin er tekin á Austurlandi og tengist ekki fréttinni beint.
Myndin er tekin á Austurlandi og tengist ekki fréttinni beint.

145 skjálftar voru staðsettir í vikunni og fimm sprengingar samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar. Stærsti skjálfti vikunnar, 3,4 að stærð, varð rétt suðvestan Kistufells 3. febrúar. Fjöldi frostbresta mældust norðan Vatnajökuls og allt norður að Grímsstöðum á Fjöllum.

Fáir jarðskjálftar voru staðsettir í Suðurlandsbrotabeltinu þessa vikuna. Tveir skjálftar mældust suðaustan Skjaldbreiðs, tveir við Nesjavelli og einn vestan Ölkelduháls.

Fjórir skjálftar voru staðsettir við Núpshlíðarháls og 15 voru staðsettir á 7-10 km dýpi rétt austan Kleifarvatns, allir á mánudag 31. janúar en eftir það dró úr virkninni við Kleifarvatn sem hefur verið viðvarandi þar síðastliðnar vikur.

5. og 6. febrúar mældust 6 skjálftar úti á Reykjaneshrygg, fáeina km SV af Geirfugladrangi.

Fjörutíu jarðskjálftar voru staðsettir NA í Bárðarbungu, eða rétt suðvestan Kistufells, þeir tveir stærstu voru 3,4 og 3,2 að stærð. Skjáfltahrinur eru tíðar á þessu svæði og mældist t.d ögn stærri hrina á þessum stað í lok árs 2010.

Þrír skjálftar mældust við Grímsvötn og einn við Lokahrygg sem var 3,2 að stærð. Einn skjáfti var staðsettur á Torfajökulssvæðinu. Eins og í síðustu viku var einn skjálfti staðsettur norðan í Hofsjökli.

23 skjálftar voru staðsettir í nágrenni Öskju og Herðubreiðar. Þar af voru 8 staðsettir vestur af Öskjuvatni en einnig greindust allmargir aðrir smáskjálftar aðeins á jarðskjálftamælinum við Öskju en ekki annars staðar og var því ekki unnt að staðsetja þá.

Fáir skjálftar mældust þessa vikuna í Mýrdalsjökli, eða aðeins átta. Sá stærsti var 1,5 að stærð. Fjórir voru staðsettir sunnan í eða við Eyjafjallajökli, og voru þeir allir litlir.

Þá hefur verið talsverð skjálftavirkni nálægt Langjökli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×