Innlent

Mikill samdráttur í áfengissölu

Minna hefur selst af fötum og skóm nú en fyrir ári. Þær greinar hafa ekki náð sér á strik eftir hrun, samkvæmt Rannsóknasetrinu. fréttablaðið/anton
Minna hefur selst af fötum og skóm nú en fyrir ári. Þær greinar hafa ekki náð sér á strik eftir hrun, samkvæmt Rannsóknasetrinu. fréttablaðið/anton

Sala áfengis dróst saman um 6,4 prósent í janúar miðað við sama mánuð í fyrra, á föstu verðlagi. Áfengisverð var hálfri prósentu hærra nú en þá.

Þetta kemur fram í smásöluvísitölu Rannsókna­seturs verslunarinnar. Í janúar síðastliðnum var áfengissalan svipuð og hún var um mitt árið 2005. Talið er líklegt að miklar hækkanir árið 2009 hafi enn áhrif á að áfengissala er minni en áður. Einnig er tekið fram að ráðstöfunartekjur hafi minnkað.

Heildarvelta í dagvöruverslun jókst um 2,4 prósent miðað við sama tíma í fyrra á föstu verðlagi. Á þeim tíma hefur dagvöruverð hækkað um tæpt prósent.

Sala á raftækjum og húsbúnaði jókst mikið milli ára. Raftækjasala var fjórðungi meiri nú í janúar en í fyrra en velta húsgagnabúða jókst um 6,6 prósent. Raftækjaverð hefur lækkað um tíu prósent á þessum tíma en húsgagnaverð hækkaði lítillega, um 2,5 prósent.

Þá hefur fata- og skóverslun dregist saman og janúar­útsölur í ár þykja ekki hafa verið eins líflegar og í fyrra. Fataverslun dróst saman um 14,2 prósent milli ára á föstu verðlagi og skóverslun um fjögur prósent. Fataverð hefur nánast staðið í stað á þessum tíma en verð á skóm hefur lækkað um rúm tvö prósent. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×