Erlent

Herinn ósáttur við mótmæli

Í gær hélt meðal annars starfsfólk í heilbrigðisgeiranum út á götur í Egyptalandi að krefjast betri kjara.nordicphotos/AFP
Í gær hélt meðal annars starfsfólk í heilbrigðisgeiranum út á götur í Egyptalandi að krefjast betri kjara.nordicphotos/AFP

 Egypski herinn krafðist þess í gær að verkföllum og mótmælasamkomum linnti, nú þegar Hosni Mubarak væri farinn frá og herinn hefði tekið að sér stjórn landsins.

Þrátt fyrir það var efnt til mótmæla og verkfalla af ýmsu tagi víða um land. Meira að segja lögreglan, sjúkraflutningamenn og bifreiðastjórar kröfðust betri kjara.

Mótmælendur á Tahrir-torgi í Kaíró voru þó að mestu farnir á brott. Herinn hefur lofað lýðræðislegum kosningum, en alger óvissa ríkir um það hvort og hvernig staðið verður við það loforð.

Víða í löndum arabaheimsins var efnt til mótmæla í gær. Meðal annars í Íran þar sem lögreglan tók harkalega á móti tugum þúsunda í höfuðborginni Teheran.

Einnig kom til átaka í Barein og Jemen þar sem fólk hafði fjölmennt út á götur og torg.

Evrópusambandið hefur áhyggjur af auknum flóttamannastraumi frá Norður-Afríkuríkjum í kjölfar ólgunnar síðustu vikur. Frá Túnis hafa meira en fjögur þúsund manns siglt yfir til ítölsku eyjunnar Lampedusa nú í vikunni.

Túnisbúar hafna algerlega boði Evrópusambandsins um hernaðaraðstoð af þessu tilefni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×