Innlent

Buddy Holly aflýst - Sjonni Brink lék söngvara sem dó ungur

SB skrifar

„Þetta var mikið áfall fyrir okkur í sýningunni," segir Ingólfur Þórarinsson sem lék aðalhlutverkið í söngleiknum Buddy Holly. Í dag var tekin sú ákvörðun að hætta sýningum á söngleiknum vegna fráfalls Sigurjóns Brink.

Í söngleiknum lék Sigurjón söngvarann Ritchie Valens sem var á tónleikaferðalagi með Buddy Holly. Ritchie var frægastur fyrir lagið La Bamba en hann var aðeins 17 ára þegar hann lést í flugslysi ásamt Buddy Holly og J.P. Richardson.

„Sýningunni lauk á því að við stóðum þrír saman á sviðinu og því var lýst að við værum dánir. Þetta er sorleg saga og vekur upp erfiðar minningar fyrir okkur og alla þá sem nánir voru Sigurjóni," segir Ingólfur.

Ingólfur segir að sýningin hafi gengið vel og hópurinn hafi haft mikla trú á henni. Desembermánuður hafi verið rólegur í miðasölu en fólki hafi trúað því að það myndi glæðast með vorinu.

„Þetta var gefandi og skemmtilegt verkefni fyrir alla sem tóku þátt. En ákvörðunin í dag er mjög skiljanleg," segir Ingólfur.

-- Með fréttinni má sjá myndband þar sem Sigurjón Brink syngur lagið La Bamba sem Ritchie Valens gerði heimsfrægt. Myndbandið var sett á Youtube af aðdáanda Sigurjóns til heiðurs honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×