Innlent

Vinna við Búðarhálsvirkjun sett á fulla ferð

Landsvirkjun veitti Ístaki í dag heimild til að setja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun á fulla ferð, þó með fyrirvara um að stöðva megi verkið, ef ekki rætist úr fjármögnun á næstunni. Þetta þýðir að starfsmannafjöldinn þar mun margfaldast á næstu vikum og mánuðum.

Framkvæmdirnar við Búðarháls hafa frá því þær hófust í vetrarbyrjun verið í hægagangi meðan Landsvirkjun hefur beðið eftir að fá erlend lán til að fjármagna verkið. Þannig hafa aðeins milli 20 og 30 starfsmenn Ístaks unnið á svæðinu í vetur við takmörkuð undirbúningsverk en verktakinn hafði heimild Landsvirkjunar til að vinna fyrir allt að 500 milljónir króna, af tíu milljarða verksamningi.

Forstjóri Landsvirkjunar hafði áður lýst því yfir að framkvæmdirnar yrðu ekki settar á fulla ferð fyrr en lánsfjármögnun væri tryggð. Þær vonir hafa ítrekað brugðist og stóð fyrirtækið nú frammi fyrir því vali að gera hlé á verkinu eða leyfa Ístaki að halda áfram.

Síðari kosturinn hefur nú orðið ofan á og segir Ragna Sara Jónsdóttir, talsmaður Landsvirkjunar, að fyrirtækin hafi í dag gert með sér samkomulag um að vinna við Búðarháls fari í fullan gang. Sá fyrirvari er þó á að Landsvirkjun getur stöðvað verkið ef ekki rætist úr fjármögnun á næstunni. Ragna Sara segir menn nú vonast til að fjármögnun ljúki í kringum mánaðamótin febrúar-mars.

Hermann Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks, segir að vinna fari nú af stað við stöðvarhús, stíflugerð og jarðgangagerð og starfsmönnum verði fjölgað jafnt og þétt á næstu vikum og mánuðum. Býst hann við að 150 til 180 starfsmenn verði við Búðarháls í sumar sem og næstu tvö árin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×