Innlent

Össur fundar með litháískum ráðamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson er staddur í Litháen.
Össur Skarphéðinsson er staddur í Litháen.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er staddur í Vilníus í boði litháískra stjórnvalda í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti samhljóða að viðurkenna sjálfstæði Litháen hinn 11. febrúar árið 1991. Össur átti í dag fundi með Daliu Grybauskaite, forseta Litháen, og Audronius Azubalis utanríkisráðherra, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu á Íslandi.

Á fundunum var rætt um samskipti ríkjanna, bæði innan ramma samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og á evrópskum vettvangi. Utanríkisráðuneytið segir að á fundinum hafi komið fram skýr stuðningur Litháens við umsókn Íslands um aðild að ESB og að Litháen sé reiðubúið að aðstoða íslensk stjórnvöld í samningaferlinu framundan.

Litháar hafa ítrekað sýnt að þeir hafa ekki gleymt viðurkenningu Íslands á sjálfstæði landsins og afhenti utanríkisráðherra Litháen sérstakt þakkarbréf þar sem stuðnings Íslands er minnst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×