Innlent

Óliðlegt hjá borginni að moka ekki eldri borgara út

Valur Grettisson skrifar
Snjómokstur. Myndin er úr safni.
Snjómokstur. Myndin er úr safni.

„Ég hef ekki heyrt svona lagað áður og finnst þetta heldur óliðlegt hjá borginni," segir Sigurður Einarsson, framkvæmdarstjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, en Vísir greindi frá því í morgun að maður á níræðisaldri væri fastur heima hjá sér eftir að borgin stíflaði innkeyrsluna hans eftir snjómokstur.

Maðurinn, sem býr í hlíðunum, getur ekki mokað sig út með góðu móti, og hringdi í Vísi og greindi frá óánægju sinni.

Þegar rætt var við Guðna Hannesson, yfirverkstjóra gatnahreinsunar hjá Reykjavíkurborg, fengust þau svör að borgarbúar þyrtu að bíta í þetta súra epli. Fjölmargar kvartanir hafa borist borgaryfirvöldum vegna sama vandamáls að sögn yfirverkstjórans en, „við getum ekki látið snjóinn hverfa," sagði Guðni.

„Mér finnst eðlilegt að gamalt fólk fái einhvern til þess að moka sig út," segir Sigurður og bætir við að það sé sennilega ekki auðvelt fyrir gamalt fólk að skófla sig út úr hörðum skafli sem vélskófla hefur hrúgað saman.

Eldri borgarar eiga rétt á margvísislegri þjónustu, „en ekki svona," segir Sigurður og bætir við: „Mér finnst þetta bara óliðlegt hjá borginni."


Tengdar fréttir

Níræður fastur í innkeyrslunni: „Það er ekkert við þessu að gera“

„Við getum ekki bara látið snjóinn hverfa," segir Guðni Hannesson, yfirverkstjóri gatnahreinsunar hjá Reykjavíkurborg, en það hefur verið óvanalega snjóþungt í borginni síðastliðna daga. Svo hefur borið á því að snjór hefur stíflað innkeyrslur eftir mokstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×