Innlent

Varað við vatnavöxtum í Hvítá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hvítá.
Hvítá.
Veðurstofan varaði í morgun við Vatnavöxtum í Hrunamannahreppi, nánar tiltekið á vatnasviði Hvítár. Hlýtt hefur verið á hálendinu og mikið rigning á suðvesturhluta þess. Rennslið hefur því vaxið töluvert í ánni.

Ragnar Magnússon, bóndi og oddviti Hrunamannahrepps, var í þann mund að fara að skoða aðstæður þegar Vísir náði af honum tali um hálftvöleytið í dag. Hann sagðist þá hafa heyrt að vatnavextirnir væru ekkert í líkingu við það sem var árið 2006.

„Þetta er ekki orðið neitt svakalegt ennþá allavega. Það er nú trúlega ekkert mjög mikill snjór á hálendinu til að bræða. En það er ansi hlýtt," segir Ragnar.

Ragnar segir að það sé alltaf hætta á að tún skemmist við þær aðstæður sem eru núna. „Það er náttúrlega alltaf hætt við því ef þetta fer yfir túnin núna þegar það er búið að vera svona hlýtt í nokkra daga að klakar og annað slíkt rífi upp rótina þar sem hún er alveg máttlaus þar sem er búið að þiðna," segir Ragnar.

Samkvæmt upplýsingum frá vatnamælingamanni hjá Veðurstofunni er búist við því að vatnavextirnir í Hvítá nái hámarki einhvern tímann í kvöld. Einnig hafa verið leysingar og vatnavextir í Borgarfirði. Norðurá er á vöktunarplani en ekki hefur enn komið til þess að vara þyrfti við vatnavöxtum í ánni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×