Innlent

Berjablá Súðavík

Berjaspretta á Vestfjörðum er í góðu meðallagi í ár og helgina 26.-28. ágúst efna Súðvíkingar í fyrsta sinn til fjölskyldu- og uppskeruhátíðarinnar Bláberjadaga þar sem fólk er hvatt til að skemmta sér saman, tína ber og njóta þess besta sem náttúran hefur upp á að bjóða. Í tilkynningu segir að stefnt sé að því að gera Bláberjadagana að árlegum viðburði í Súðavík.

Bláberjadagar eru engin venjuleg bæjarhátíð. Þemað er bláber, þessi holla og næringarríka náttúruafurð,“ segir í tilkynningu. „Sveitarfélagið er mjög ákjósanlegt til berjatínslu sem gerist með því besta sem þekkist, mikið magn af krækiberjum, bláberjum og aðalbláberjum er að finna í öllum fjörðum sveitarfélagsins.  Verið er að leggja lokahönd á gerð sérstaks korts sem sýnir hvar hægt sé best að tína ber. Við hvetjum sem flesta til að heimsækja okkur, bæði nágranna okkar hér fyrir vestan sem og landsmenn alla og tína sem mest af berjum og taka þátt í þeim fjölmörgu viðburðum sem búið er að skipuleggja hér í Súðavík í tilefni hátíðarinnar, svona til að hressa upp á sál og líkama milli berjatínsluferða," segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík.

Sveitastjórinn lofar góðri uppskeru í ár - enda berjaspretta vestra í góðu meðallagi öfugt við suma aðra landshluta. Til að auka enn frekar á hátíðarstemninguna verður Súðavík skreytt hátt og lágt vegna uppskeruhátíðarinnar og á föstudagskvöldinu verður boðið upp á sætaferðir milli innri og ytri byggðarinnar með „bláberjalestinni".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×