Innlent

Leikskólinn Mýri verður rekinn af borginni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/Fréttablaðið
Menntaráð Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í gær að borgin taki yfir rekstur leikskólans Mýrar sem hefur verið sjálfstætt starfandi frá árinu 1989. Í tilkynningu frá borginni segir að stjórn foreldrafélags leikskólans hafi óskað eftir því snemma á þessu ári að borgin tæki yfir reksturinn og hefur nú náðst sátt um að svo verði frá og með 1. ágúst 2011.

„Leikskólinn Mýri hóf starfsemi sína 1. september 1989 í fjögurra hæða húsi við Skerplugötu í Skerjafirði. Húsið var byggt 1906 og stóð áður við Tjarnargötu 11. Fyrstu 7 árin var leikskólinn foreldrarekinn og leigðu foreldrar húsið af Læknafélagi Reykjavíkur. Um áramótin 1996 - 1997 var gerður þjónustusamningur við Reykjavíkurborg, þar sem samið var um að foreldrar hefðu yfirumsjón með rekstrinum, en fengju rekstrarstyrki frá borginni sem jafnframt innheimti leikskólagjöld."

Þá segir að Reykjavíkurborg hafi keypt húsið af Læknafélagi Reykjavíkur í mars árið 2000 og hefur séð um viðhald þess. Á Mýri er að jafnaði 41 barn á þremur deildum og er Unnur Jónsdóttir leikskólastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×