Innlent

Vill skylda veitingahús til að gefa upp hitaeiningamagn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sturla segir gríðarlega mikilvægt að draga úr magni hitaeininga í matvælum.
Sturla segir gríðarlega mikilvægt að draga úr magni hitaeininga í matvælum.
Það væri æskilegt ef stjórnvöld skylduðu eigendur veitingahúsa til þess að tilgreina á matseðli veitingahúsanna hversu margar hitaeiningar eru í réttunum þeirra. Þetta segir Sturla B. Johnsen, heilsugæsluæknir hjá Heilsuvernd Reykjavíkur.

„Mér skilst að búið sé að setja þetta sumstaðar í lög í Bandaríkjunum, til dæmis New York,“ segir Sturla. Þetta hafi haft þau áhrif að veitingahúsaeigendur séu orðnir mun meðvitaðri um það hvaða hráefni þeir setja í þá rétti sem þeir bjóða. „Þetta hefur haft þau áhrif að réttir sem voru kannski 1200 hitaeiningar eru nú komnir niður í 700 hitaeiningar,“ segir Sturla.

„Þetta er gríðarlega þýðingarmikið atriði fyrir lýðheilsu á Íslandi,“ segir Sturla. Hann bendir á að með þessu móti mætti spyrna fótum við offituvæðingu í samfélaginu og takast á við ýmsa heilsutengda sjúkdóma. Þar nefnir hann sem dæmi hjarta- og kransæðasjúkdóma og sykursýki. „Auk þess sem það myndi náttúrlega líka hafa áhrif á andlega heilsu fólks,“ segir Sturla. Hann segist þekkja það af eigin raun og af samskiptum við skjólstæðinga sína að leiðin til þess að draga úr offitu sé að minnka hitaeiningamagn. Það skipti jafnvel meiru magni en hreyfing.

Sturla segir að þetta þyrfti ekki að vera íþyngjandi fyrir eigendur veitingahúsa. Hann bendir á að þeir veitingastaðir sem nú þegar taki fram hve hitaeiningaríkir réttirnir þeirra séu njóti vinsælda fyrir að huga að heilsu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×