Innlent

Staðgengill borgarstjóra hættir

Samsett mynd/Vísir
Regína Ásvaldsdóttir, fyrrum staðgengill borgarstjóra, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þekkingarseturs um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Staðan var auglýst 25. júlí síðastliðinn og voru fimmtíu og fimm sem sóttu um starfið.

Markmiðið með þekkingarsetrinu er að byggja upp og viðhalda þekkingu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og í nánu samstarfi við háskólasamfélagið að efla nám og annað fræðastarf á Íslandi tengdu samfélagsábyrgð í viðskiptalífinu. Stefnt er að opnun setursins síðar í haust.

Stofnaðilar þekkingarsetursins eru Íslandsbanki, Landsbankinn, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan, Össur og Síminn.

Regína Ásvaldsdóttir er félagsráðgjafi að mennt með framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu og meistaragráðu í breytingastjórnun og nýsköpun frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi.

Regína hefur margra ára reynslu sem stjórnandi, nú síðast sem skrifstofustjóri og staðgengill borgarstjóra. Regína hefur víðtæka reynslu af mótun samstarfsverkefna með þátttöku íbúa, fyrirtækja og stofnana og hefur í fyrirlestrum og í kennslu fjallað sérstaklega um félagslega nýsköpun sem afl til umbreytinga í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×