Innlent

Framhaldsskólakennarar unnu að meðaltali 182 daga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík
Nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík
Samanlagður fjöldi kennsludaga og prófadaga nemenda í framhaldsskólum á síðasta skólaári var 175. Það er óbreyttur fjöldi frá fyrra skólaári. Þetta kemur fram í upplýsingum frá framhaldsskólunum til Hagstofu Íslands.

Kennsludagar skiptast í reglulega kennsludaga og aðra kennsludaga. Reglulegir kennsludagar voru frá 141 til 180 eftir skólum og stafar munurinn af mismunandi skipulagi skólastarfsins. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 149. Reglulegir kennsludagar voru að meðaltali um fjórum fleiri á vorönn en á haustönn. Að auki voru aðrir kennsludagar um 2 fleiri að meðaltali.

Dagar sem einungis var varið til prófa og námsmats voru frá 0 til 30 að tölu. Flestir skólar eru með ákveðinn prófatíma en í öðrum skólum fara próf fram á kennsludögum. Að meðaltali var um 24 dögum varið til prófa og námsmats.

Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir samtals 175 kennslu- og prófadögum á starfstíma skóla og fjórum vinnudögum kennara að auki. Vinnudagar kennara á skólaárinu 2010-2011 reyndust vera frá 174 til 195. Meðalfjöldi vinnudaga kennara var 182.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×