Viðskipti erlent

Samkeppnisreglur flækja söluna á Iceland

Samkeppnisreglur gera það að verkum að fjórar af stærstu stórmarkaðakeðjum Bretlands þyrftu að losa sig strax við yfir 20% af verslunum Iceland ef þær eignast Iceland.

Greint er frá þessu í Financial Times þar sem vitnað er í greiningu frá greiningarfyrirtækinu CACI sem sérhæfir sig í ráðgjöf í smásöluverslun í Bretlandi. Telur CACI að samkeppnisreglurnar gætu tafið söluferli Iceland sem nú er hafið.

Samhliða telur CACI að þessi staða komi Malcolm Walker forstjóra Iceland til góða en hann hefur áhuga á að kaupa keðjuna. Í frétt á vefsíðunni Retail Week segir að Walker hafi átt í viðræðum við fjárfestingarsjóðinn Blackstone um fjáfrmögnun á kaupunum

Stórmarkaðakeðjurnar sem hér um ræðir eru Asda, Tesco, J Sainsbury og Wm Morrison. Það eru aðeins Co-op og Waitrose sem þyrftu að selja minna en 20% af verslunum Iceland en þessar keðjur eru taldar hafa lítinn áhuga á að kaupa Iceland.

Eins og áður hefur komið fram er verðmiðinn á Iceland í kringum 1,5 milljarðar punda eða um 273 milljarðar kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×