Innlent

Kærði til Persónuverndar þegar hann fékk ekki tímana greidda

Valur Grettisson skrifar
Þreyttur vörubílstjóri. Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Þreyttur vörubílstjóri. Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.

Persónuvernd úrskurðaði í janúar að flutningafyrirtæki á Grundarfirði megi fylgjast með starfsmönnum sínum í gegnum ökurita. Það var starfsmaður fyrirtækisins sem kvartaði til Persónuverndar eftir að fyrirtækið neitaði að greiða alla tímana sem hann sagðist hafa unnið.

Í póstsamskiptum á milli Persónuverndar við báða aðila kemur fram að starfsmaðurinn hafi haldið því fram að hann hafi ekið í 387 tíma á einum mánuði. Fannst forsvarsmönnum fyrirtækisins þetta heldur mikið og könnuðu því ökuritann. Hann sagði allt aðra sögu, en þar kom fram að bíllinn hefði verið ekinn í 162 tíma.

Þá keyrði hann 100 klukkustundum lengur en aðrir starfsmenn samkvæmt hans tímabókhaldi, en þeir tóku sérstaklega fram að starfsmaðurinn hefði ekki unnið lengur en samstarfsfélagarnir á hverjum degi.

Sér til varnar hélt starfsmaðurinn því fram að hann hefði ekið fleiri en einum bíl auk þess sem starfið fólst ekki eingöngu í því að aka bifreiðunum, heldur lesta þá, losa og þrífa. Slíkt kæmi ekki fram í ökuritanum.

Persónuvernd tekur að sjálfsögðu ekki afstöðu til vinnulaunamálsins, en kemst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið megi fylgjast með bílum sínum í ljósi þess að þeir eru ekki notaðir í tengslum við einkalíf starfsmanna.

Aftur á móti kemst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði átt að kynna ökuritann fyrir starfsmanninum. Fyrirtækið hafði reyndar kynnt það fyrir starfsmönnum sínum áður en umræddur starfsmaður hóf störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×